149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég held enn í vonina, sérstaklega eftir að hafa lesið þetta viðtal og hafa hlýtt á ræður hæstv. fjármálaráðherra um þetta mál. Ég held enn í vonina um að hann geti stigið inn og leitt þessi mál til lykta á farsælan hátt. Ég vek athygli á því að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki verið mjög áberandi í þessari umræðu og jafnvel viljað forðast að taka þátt í henni eins og sjá mátti í fyrirspurnatíma í gær. Maður getur leyft sér að vona að hæstv. ráðherra sé að fylgjast með og huga að þeim atriðum sem fram koma í umræðunum og geti á endanum stigið inn og leyst málið, leyst þetta stóra og erfiða ágreiningsmál sem hefur reynst okkur Íslendingum svo erfitt.