149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eðlilega gegnir einhver fyrir hæstv. utanríkisráðherra meðan hann er erlendis, hvar í heimi sem það skyldi nú vera. En þetta mál er þannig vaxið að ég held að það væri töluverður munur á því að fá þann mann hingað til andsvara, þó að það væri vissulega kostur að láta á það reyna og væri áhugavert ef forseta er kunnugt um hver það er sem gegnir fyrir hæstv. utanríkisráðherra. Það skiptir engu að síður máli, upp á skipulag umræðunnar að gera, að fá upplýsingar um það hvenær hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, er væntanlegur til landsins. Þær upplýsingar hljóta að liggja fyrir. Hvort sem einhver gegnir fyrir hann eða ekki hljóta þær upplýsingar að liggja fyrir hvenær hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, er væntanlegur til landsins. Mig langar til að biðja hæstv. forseta að finna út úr því og upplýsa þingheim um hvenær hann er væntanlegur.