149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vona að forseti taki það ekki svo að við séum að ergja hann svo snemma í þessari umræðu. Eins og hér hefur komið fram báðum við um nærveru nokkurra manna hér í nótt. Það vill svoleiðis til að það veitir ekki af því að við fáum hæstv. utanríkisráðherra hingað því að bara nú í morgun sagði Styrmir Gunnarsson, í örstuttri grein, að málið sem við ræðum hér sé mestu mistök sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert í utanríkismálum. Það er full ástæða fyrir okkur, ef hægt er, að komast að því hvenær hæstv. utanríkisráðherra verður hér á ferðinni. En mér þætti einnig vænt um ef hæstv. fjármálaráðherra hefði orðið við ósk frá því snemma í morgun eða í nótt um að láta svo lítið að kíkja hér við. Hann er náttúrlega ekki bara fjármálaráðherra heldur líka formaður Sjálfstæðisflokksins og við hefðum gjarnan viljað eiga við hann orðastað um þetta mál sem veldur okkur miklum áhyggjum.