149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra mæti hingað í eigin persónu því að hæstv. ráðherra hefur gert þetta mál mjög persónulegt. Hann saknaði mín t.d. mjög hér þegar hann langaði eitthvað að tjá sig um þetta mál á fyrri stigum, kvartaði yfir því að ég væri þá í útlöndum í opinberum erindagjörðum, kvartaði reyndar ekkert yfir því að hv. formaður utanríkismálanefndar væri með mér í sömu ferð. Mér þótti þetta sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra hafði skömmu áður beðið okkur Miðflokksmenn um að hleypa sér fyrr að með málið svo að hann kæmist til útlanda. Það að hann sé fjarverandi í útlöndum, að því er virðist alla síðari umr., er auðvitað afskaplega sérkennilegt. Því bið ég forseta að kanna hvar hæstv. ráðherra, þessi raunverulegi, er staddur. Það væri líka fróðlegt að vita hver er gegningarráðherra hæstv. utanríkisráðherra á meðan hann er í burtu — ef hann er í burtu.