149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:09]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fara aðeins yfir, og ekki að ófyrirsynju, tilskipun nr. 72/2009, sem er hryggjarstykkið í orkupakkanum sem stendur til að innleiða. Þar stendur um almenn markmið eftirlitsyfirvalds, sem er þá Orkustofnun hér á Íslandi, sem er orðin eins konar handbendi ESA, sem heyrir síðan undir ACER, sem er Eftirlitsstofnun Evrópubandalagsins:

„að tryggja að kerfisstjórum og kerfisnotendum sé veitt viðeigandi hvatning, bæði til lengri og skemmri tíma, til að auka skilvirkni kerfisins og stuðla að markaðssamþættingu“.

Þetta þýðir að koma þarf á hvata, ef hann vantar, til þess að þeir sem stýra flutningskerfunum auki skilvirknina, sem væntanlega væri flutningsgeta m.a., og stuðli að markaðssamþættingu, þ.e. að tengja markaði betur.

Með leyfi forseta, stendur einnig:

„að tryggja að viðskiptavinir hafi ávinning af virkri starfsemi landsbundins markaðar þeirra, stuðla að virkri samkeppni og öruggri neytendavernd“.

Þetta ákvæði er rökrétt og skiljanlegt í ljósi meginlandshugmyndafræðinnar í Evrópu vegna þess að þar eru orkufyrirtækin einkavædd en ekki í þjóðareigu eins og hér er.

Það er einnig almennt markmið:

„að stuðla að því að koma á alþjónustu og opinberri rafveituþjónustu á háu stigi, að stuðla að því að vernda vanmegna viðskiptavini og stuðla að samrýmanleika nauðsynlegra gagnaskiptaferla þegar viðskiptavinir skipta um söluaðila.“

Þetta er það sem varðar neytendaverndina.

En varðandi skyldur og valdsvið eftirlitsyfirvaldsins fer samkvæmt 37. gr. og í 1. tölulið segir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi skyldur heyra undir starfssvið eftirlitsyfirvalds:

a) að ákvarða eða samþykkja, í samræmi við gagnsæjar viðmiðanir, gjaldskrár“ — að ákvarða, þetta er nú markaðsvæðingin — „fyrir flutning og dreifingu eða aðferðafræði þeirra“.

Það er boðvald, sem er Orkustofnun, sem búið er að aðskilja frá framkvæmdarvaldinu, fjármagnað af Íslandi, sem fer að ákvarða gjaldskrár.

Í b-lið segir:

„að tryggja að flutnings- og dreifikerfisstjórar og, ef við á, kerfiseigendur, ásamt eigendum raforkufyrirtækja, uppfylli skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun og annarri viðeigandi löggjöf bandalagsins …“ — bandalagið hér þýðir Evrópubandalagið, orkubandalagið, sem verið er að mynda í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á milli Evrópubandalagsins og EES — „þar með talið að því er varðar málefni yfir landamæri“.

Það þýðir annaðhvort raforkustreng yfir landamæri eða sæstreng þar sem haf skilur á milli landa. Og hvernig skyldi nú skilja þetta? Hér hefur því verið haldið fram í fjölmörgum ræðum að í orkupakka þrjú sé ekkert minnst á sæstreng. Nei, ég hef ekki endilega fundið orðið „sæstrengur“ en „grunnvirki yfir landamæri“ og „málefni yfir landamæri“ og „samþætting markaða“, „að tengja kerfi …“ — Það er allt orðalag sem miðar að því sama, þ.e að geta flutt raforkuna á milli og gera það samkvæmt forsendum Evrópusambandsins. En því miður er það ekki endilega það sem hentar okkur Íslendingum.

Undir 37. gr. í c-lið segir:

„samstarf með hliðsjón af málefnum yfir landamæri við eftirlitsyfirvald eða yfirvöld viðkomandi aðildarríkja og við stofnunina“.

Það eru þá sambærileg yfirvöld í öðrum ríkjum og Orkustofnun væri hér og hins vegar við stofnunina. En hver er sú stofnun? Það er þessi margfræga (Forseti hringir.) ACER, sem er yfir og alltumlykjandi. — Ég sé að tíminn er hlaupinn frá mér, ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.