149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:17]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir andsvarið. Ég verð að leyfa mér að taka undir það að hér hafa margir lýst skoðunum sínum — og það er út af fyrir sig ágætt og hluti umræðunnar, alveg klárlega — en færri farið yfir staðreyndir málsins þó að Miðflokksmenn hafi verið drjúgir við að leita þeirra. Ég held að það sé ákveðin ástæða fyrir því. Ég tel að fólki hafi verið rétt upp í hendurnar ákveðin gögn sem skýra hluta máls en ekki allt, og það hafi kannski verið gert til að koma málinu áfram, til að það rynni frekar í gegnum þingið, í þeirri von að við myndum ekki hnýta í það sem ekki er ljóst eða það sem búið er að hafna í málinu, þ.e. hér er verið að ganga á hagsmuni Íslands fyrir hagsmuni Evrópu. Það er grafalvarlegt mál og ég held að nokkur sómi væri að því að það fólk sem sá sig knúið til að stökkva inn í þingsal þegar tvær myndavélar voru hér frá fjölmiðlum en hvarf jafn skjótt og myndavélarnar voru horfnar (Forseti hringir.) kæmi í þingsal og tæki umræðuna á málefnalegum nótum.