149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:31]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í andsvarinu fólst sú spurning hvort þarna væri stórt verkefni sem litið væri fram hjá þegar tekið væri tillit til annars vegar flutningsgetu dreifikerfisins eins og það er í dag og hins vegar þess sem vænta má, með tilvonandi vindorkugörðum, að þurfi að koma inn á kerfið. Það er að ótöldum þeim u.þ.b. 100 leyfum sem liggja inni fyrir smávirkjunum sem teljast undir tíu megavöttum og þurfa ekki að fara í umhverfismat.

Ég held að þetta sé alveg rétt. En hvert væri það verkefni sem við þyrftum að sinna til að leysa þetta? Væri það ekki eitthvað sem myndi heita orkustefna Íslands, eitthvað sem við myndum ákvarða fyrir okkur sem land um hvernig við ætluðum að standa að?

Við erum ekki með slíka stefnu, þó að það hafi staðið til lengi að gera slíka stefnu. Það er ein ástæða þess, fyrir utan það að vera á móti þessari innleiðingu sem slíkri, að þó svo að við værum jafnvel búin að fara fyrir EES-nefndina og fá viðeigandi niðurstöðu, þyrftum við samt sem áður að vera búin að marka okkur stefnu og gera það áður en við förum aftur með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina, til þess að sú niðurstaða sem þaðan kemur þurfi ekki að vera orkustefna Evrópusambandsins sem orki svo tvímælis við innleiðingu orkupakkans, ef hann gæti litið út eins og við getum við unað.