149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Það er við hæfi á þessum fallega degi, á fyrsta degi sem Selfyssingar eru Íslandsmeistarar í handbolta karla, að óska Ungmennafélaginu Selfossi og öllum Selfyssingum og Sunnlendingum hjartanlega til hamingju með þennan glæsilega árangur, en í gærkvöldi áttust við lið Ungmennafélags Selfoss og harðsnúið lið Hauka í Hafnarfirði sem lauk með afgerandi sigri heimamanna á Selfossi, 35:25.

Þegar stjórnarflokkarnir kynntu að ætlunin væri að leggja fyrir Alþingi þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins var því hnýtt við að það yrði gert með svokölluðum lagalegum fyrirvara og því væri öllu óhætt. Þetta varð til þess að öll andstaða sem hafði orðið vart innan stjórnarflokkanna, þá helst innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, virtist hreinlega gufa upp. Menn litu hver á annan og kinkuðu kolli og hölluðu sér aftur í sætum sínum. Öllu væri óhætt með orkuauðlindirnar. Það leit þannig út að búið væri að ganga þannig frá málum að með snilldarlegum hætti væri búið að finna þá töfralausn sem dygði til þess að jafnvel hinir mestu efasemdarmenn gætu látið af varðstöðu sinni og snúið sér að öðrum þarfari verkum. Nú þyrfti ekki að hafa áhyggjur af stjórnarskránni eða valdsviði orkumálastofnunar Evrópusambandsins, óhætt væri að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara og innleiða þannig þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins vegna þess við Íslendingar myndum innleiða tilskipunina með lagalegum fyrirvara.

Frú forseti. Þetta leit allt mjög vel út þótt fáir gerðu sér grein fyrir því hvað fælist nákvæmlega í slíkum lagalegum fyrirvara. Þegar þingmenn Miðflokksins kölluðu ítrekað eftir því að fá að sjá hvar fyrirvarann væri að finna kom mikið fát á stjórnarliða. Og næstu klukkustundirnar fengum við að heyra a.m.k. fjórar mismunandi útgáfur af því hvar hann væri og hvers lags hann væri. Margoft hafa þingmenn stjórnarliðsins bent á sameiginlega yfirlýsingu um sameiginlegan skilning hæstv. utanríkisráðherra og orkumálastjóra Evrópusambandsins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur að yfirlýsingin hefði ekki bein lagaleg áhrif, en hún hefði lagalega þýðingu í málinu.

Frú forseti. Á það hefur verið bent að yfirlýsingin, sem snýst helst um djúpan skilning á því að Ísland sé eyja, hafi enga þýðingu og geti að sjálfsögðu ekki verið sá lagalegi fyrirvari sem eftir er leitað. Þingmenn stjórnarliða bentu einnig á í þessu sambandi sameiginlega yfirlýsingu EFTA-ríkjanna frá 8. maí en sú yfirlýsing áréttar einungis sérstöðu Íslands þar sem landið er ekki tengt Evrópu með sæstreng. Ekki getur þessi yfirlýsing, sem kemur frá Liechtenstein og Noregi, um alkunna staðreynd, verið sá lagalegi fyrirvari sem leitað hefur verið eftir og kallað hefur verið eftir margoft.

Í þriðja lagi, frú forseti, var bent á breytingu á raforkulögum, viðbót við 9. gr. raforkulaga, sem liggur frammi í frumvarpsformi þess efnis að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annarra landa í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þetta er úr frumvarpinu. Ef þetta er sá lagalegi fyrirvari sem leitað hafði verið eftir og ítrekað kallað eftir hefðu menn getað sparað sér slíka frumvarpsgerð, því að þennan texta nánast orðréttan er nú þegar að finna í raforkulögunum, 39. gr. a. Menn hefðu getað sparað sér þetta. Ef þetta er fyrirvarinn hefðu menn getað sleppt því.

Þá hefur verið vísað í orðalag í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem við hér ræðum, en sá texti boðar einfaldlega innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins, nr. 713/2009, með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara, eins og stendur í greinargerðinni, um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og Evrópusambandsins verði ekki reist nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar. Ekki getur texti í greinargerð, frú forseti, þessi texti, verið þessi lagalegi fyrirvari, sérstaklega þegar til þess er litið að (Forseti hringir.) þingsályktunartillagan, sem ætlunin er að samþykkja, hefur ekki lagagildi í sjálfu sér (Forseti hringir.) þótt samþykkt yrði, en virðist þó boða (Forseti hringir.) þennan lagalega fyrirvara.

Menn geta verið spenntir því ég held áfram hér í næstu ræðu.

(Forseti (BHar): Vissulega, en forseti hvetur þingmenn engu að síður til að halda tímamörk.)