149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:41]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tók mig til þegar færi gafst í morgun að safna þessu saman svona nokkuð skipulega. Það er auðvitað háalvarlegt mál og varðar þjóðina mjög miklu ef ríkisstjórnin getur ekki talað skýrt í þessu máli og komið fram með þessa fyrirvara, lagt þá á borðið, en ég er a.m.k. með fimm tilgátur frá stjórnarflokkunum, þar sem þeir benda á að þarna er lagalegi fyrirvarinn, þarna er hann eða þarna.

Ég hef verið að taka þetta saman og byrjaði á þessu áðan og mun ljúka minni yfirferð hér í næstu ræðu. Ég á eftir að fara yfir a.m.k. eina tilgátu sem hefur verið bent á, sem stjórnarliðar sjálfir hafa bent á, að þarna er lagalegi fyrirvarinn, segja þeir. Við skoðuðum hann. Og hvað kemur í ljós? Við höfum ekki enn fundið hann. Og við höfum með rökum rætt þessar ábendingar, og þær falla um sjálfar sig.

Það er nauðsynlegt að stjórnarliðar komi hér, panti sér ræðutíma og svari þessu, vegna þess að svörin eru ekki enn komin.