149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög hugsi yfir orðum hv. þingmanns vegna þess að hann er náttúrlega löglærður, sem ég er ekki, og það er þannig að við fyrri umr. þessa máls þá stóð upp úr nokkrum Sjálfstæðisþingmönnum að þeir hefðu verið miklir efasemdarmenn um þetta mál en þeir hefðu að lokum sannfærst og væru þess vegna orðnir stuðningsmenn þess. Mér þykir þetta mjög athyglisvert sem hv. þingmaður segir, út af týndu fyrirvörunum. Ef þetta væri ekki svona alvarlegt mál gæti maður líkti þessu saman við barnabók sem heitir Hvar er Valli? En þetta er náttúrlega miklu alvarlegra mál en svo að það eigi að hafa það í flimtingum. Og það er náttúrlega mjög alvarlegt ef menn hafa verið blekktir til fylgilags við þennan samning undir því yfirskyni að hér liggi fyrir lögformlegir fyrirvarar, sem kemur svo í ljós að er ekki. Þetta er ósett reglugerð og ég veit ekki hvað.

Ég hef líka haft áhyggjur af gildi þessara fyrirliggjandi fyrirvara fyrir Ísland og fyrir aðkomu Íslands að samningnum. Vegna menntunar hv. þingmanns langar mig að biðja hann að fara yfir það fyrir okkur, hina ósettu fyrirvara sem setja á í reglugerð seinna: Hafa þeir eitthvað eitthvert afdráttarlaust lagagildi ef á þennan samning myndi reyna og gildi hans gagnvart mótaðilum, gagnvart Evrópusambandinu? (Forseti hringir.) Hafa fyrirvararnir raunverulegt gildi?