149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt mergurinn málsins og eins og einhver sagði, maturinn kálfsins, við erum að auglýsa eftir þessum fyrirvörum til að geta metið þá, til að geta metið gildi þeirra, hvers lags gildi þeir hafa þjóðréttarlega, það að ríkisstjórnin setji fyrirvara sem við eigum eftir að sjá sem verða til þess að okkur er óhætt að innleiða orkutilskipun Evrópusambandsins, sérstaklega reglugerð 713, sem aftur veldur því að óhætt er að samþykkja málið á Alþingi. Þetta er forsendan, þetta er ákvörðunarforsendan, sem ég ræddi áðan, fyrir því að margir þingmenn stjórnarliðanna sem voru kannski ekki búnir að kafa mjög djúpt ofan í málið ákváðu að styðja það, vegna þess að traustir menn sögðu: Þetta er óhætt vegna þess að við setjum lagalegan fyrirvara.

Ég er búinn að koma með nokkrar uppástungur um hvar hann er að finna. Hann er ekki að finna í fundum hæstv. utanríkisráðherra með einhverju fólki úti í Evrópu. Hann er ekki að finna í yfirlýsingum á fundum Liechtensteins og Noregs um að við séum eyja og hingað liggi enginn sæstrengur. Hann er ekki að finna í breytingu, óþarfa breytingu á raforkulögum sem var þá þegar að finna í lögunum. Hann er ekki að finna í greinargerð, frú forseti, með þingsályktunartillögu sem ætlunin er að samþykkja hér. Hann er ekki að finna í texta greinargerðarinnar. Það er ekki lagalegur fyrirvari, texti í greinargerð. Og hann er ekki að finna í reglugerð sem gefin er út í ráðuneyti. Ég mun koma betur að því síðar. Hann er ekki að finna í íslenskri reglugerð sem gefin er út og skrifað er undir á skrifborði hæstv. ráðherra. Það er ekki lagalegur fyrirvari og hefur ekkert gildi, eins og hv. þingmaður kom að í spurningu sinni, hann hefur auðvitað ekkert gildi (Forseti hringir.) í stóra samhenginu um innleiðingu orkutilskipunar Evrópusambandsins.