149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru öflug varnaðarorð. Eitt er það í þessu máli sem tengist Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sem ég fæ ekki alveg til að koma heim og saman. Það er sú staðreynd að Vinstri græn hafa haft nálgun sína á umhverfisvernd og náttúruvernd byggða að miklu leyti á andstöðu við virkjunarframkvæmdir hér innan lands. Ég hugsa að fá dæmi séu um mögulega framkvæmdakosti sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur verið hlynnt. Ég get eiginlega ekki nefnt eitt einasta. Þá hefur ekkert þýtt að benda Vinstri grænum á að með því að beisla hina endurnýjanlegu umhverfisvænu íslensku orku séum við að leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum heimsins, því að nálgun þeirra hefur verið mjög Íslandsmiðuð og fyrst og fremst gengið út á það að hér yrði sem minnst framkvæmt.

Ég á mjög erfitt með að fá þetta til að koma heim og saman við stuðning þingmanna Vinstri grænna núna við þennan orkupakka því að óhjákvæmilegt er að hann fæli í sér mjög umtalsverða aukningu á virkjunarframkvæmdum hér á landi af ýmsum toga. Og þá þýðir ekkert fyrir þá að bera fyrir sig að þeir vilji gjarnan flytja út þessa grænu orku svo við getum tekið þátt í að draga úr losun heimsins vegna þess að við erum að gera það nú þegar með því að nýta þessa grænu orku hér á Íslandi.

Fær hv. þingmaður þetta einhvern veginn til að smella saman, þ.e. afstaða Vinstri grænna til umhverfismála árum (Forseti hringir.) og áratugum saman og svo skyndilegur stuðningur þingmanna þeirra við orkupakkann?