149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það kristallaðist í ræðu þingmannsins að margir eldri stjórnmálamenn virðast ekki skilja frekar en við hér hvað hefur komið fyrir flokkana þeirra. Ég var einhvern tímann í morgun eða í nótt að ræða grein eftir Tómas Inga Olrich þar sem hann var mjög efins og er enn. Það er eins með Hjörleif Guttormsson. Ég kem til með að vitna mikið í Hjörleif Guttormsson í næstu ræðu minni.

Auðvitað skil ég að menn eins og Hjörleifur Guttormsson skilja ekki hvers vegna í dauðanum Vinstri grænir eru orðnir helsti talsmaður markaðsvæðingar í raforku. Auðvitað skilja þeir það ekki, vegna þess að þetta er svo víðs fjarri þeim flokki sem þeir áttu þátt í að stofna á sínum tíma. Þessi flokkur er nú búinn að taka algjöra U-beygju. Við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar sögðu menn: Við ætlum að mætast í miðjunni. Það er eins og orðinn sé samruni milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem lýsir sér m.a. í því að Vinstri grænir eru helstu talsmenn markaðsvæðingar raforku og Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í því að reyna að kyrkja alla tilburði til einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu. Þannig að maður gerir sér ekki alveg grein fyrir hvað er að gerast þarna.

Hjörleifur hefur virkilega miklar efasemdir um málið og vil ég biðja hv. þingmann að fara (Forseti hringir.) aðeins betur yfir það fyrir okkur í hverju þær efasemdir liggja helst.