149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Mér þykir heldur mikið í lagt að kalla þær fimm mínútna athugasemdir sem við fáum hér ræður, ég lagði til í gær að við myndum kalla þetta ræðlinga. En ég mun reyna að nýta tímann sem best til að fara yfir alveg einstaklega gott viðtal við hæstv. fjármálaráðherra, sem á að vera okkur hvatning í þessu máli. Ég var aðeins byrjaður að nefna þetta í fyrri ræðu en ég held áfram þar sem frá var horfið, vegna þess að hæstv. ráðherra kemst akkúrat að kjarna málsins með það sem við ættum að vera að velta fyrir okkur í þessu máli.

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni, hæstv. ráðherra, í Viðskiptablaðinu reyndar — þeir þar endursegja viðtalið við Daily Telegraph — með leyfi forseta:

„Þeir [ESB] eru nánast að sýna dónaskap, það er eins og þetta sé bara vesen í þeirra augum sem þeir spyrja hvenær við munum losa okkur við. „Hvers vegna geta ekki allir bara orðið meðlimir að fullu og öllu leyti?“ Ég get svo sem skilið þá út frá stjórnmálalegu sjónarmiði, en staðan er einfaldlega sú að ef til staðar er alþjóðasamningur [eins og við höfum] þá þarf að virða hann, það er einfaldlega þannig.“— Segir hæstv. fjármálaráðherra.

„Ummælin eru sögð koma í kjölfar þess að Alþingi Íslendinga hefur heitið að endurskoða EES-samninginn vegna þess að áhyggjur eru að aukast yfir því að honum sé beitt til að auka áhrif ESB á innri málefni landsins.

Í greininni er loks skýrt hvernig samningurinn veiti markaðsaðgang en einnig frjálst flæði vinnuafls. Lögfræðileg álitamál séu útkljáð af EFTA-dómstólnum sem sé sjálfstæður þó hann horfi oftsinnis til úrskurða Evrópudómstólsins.“

Þá segir í millifyrirsögn:

„ACER og orkumálapakki ESB umdeilt.

Síðan er nefnt hve þriðji orkumálapakkinn svokallaði hafi verið umdeildur hér á landi og deildar meiningar um áhrif hans eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um og sjá má neðst í fréttinni. Segir í greininni að íslensk stjórnvöld hafi áhyggjur af því að með tilkomu orkumálastofnunarinnar, ACER, verði stjórn Íslendinga sjálfra yfir eigin orkuauðlindum gerð veikari og reglugerðaryfirvöldum í ESB færð aukin völd.“

Þetta er það sem við höfum verið að lýsa áhyggjum af líka.

Svo segir haft eftir Bjarna Benediktssyni, hæstv. fjármálaráðherra:

„„Þátttaka okkar í innri markaðnum er byggð á tveggja stoða kerfi,“ segir Bjarni og vísar þá í að samið er um lagaumgjörðina á grundvelli EFTA í stað þess að samþykkja beina stjórn frá ESB.“

En svo kemur millifyrirsögn:

„Hneykslanleg framkoma ESB.

„Sú staðreynd að ESB heldur að við myndum samþykkja nokkuð annað er hreinlega hneykslanlegt. En það er verið að reyna þetta.“ — Segir hæstv. fjármálaráðherra. Hann segir að það sé hreinlega hneykslanlegt ef við myndum samþykkja þessa tilhögun með þriðja orkupakkann og ACER, en bendir á: „En það er verið að reyna þetta.“

Þetta horfum við upp á í þinginu nú. Það er svo sannarlega verið að reyna þetta, en það er verið að reyna það af þeim sem síst skyldi. Það er verið að reyna það af ríkisstjórninni og þar með talið hæstv. ráðherra sem talaði svona skorinort og skýrt í þessu viðtali, með hætti sem setur hlutina í samhengi og ætti að vera okkur góð hvatning til að halda þessari baráttu áfram.

Í umræddu viðtali í Viðskiptablaðinu við Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, kemur einnig fram:

„Þetta hefur að sögn Bjarna gert það að verkum að erfitt hefur verið að viðhalda og tryggja sjálfstæði þjóðarinnar í öllum málum, þó landið sé ekki aðildarríki að ESB.“

Í framhaldi af því bendir hann á að þrátt fyrir þetta hafi aðild að þessum samningi skilað ýmsum ávinningi, en um leið höfum við frelsi til að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki eins og Kína.

Nú vonast ég til, frú forseti, að þetta góða viðtal við Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, megi verða okkur þingmönnum öllum hvatning til að skoða þetta mál ofan í kjölinn, hlíta varnaðarorðum hæstv. fjármálaráðherra, taka mark á því þegar hæstv. ráðherra segir og bendir á að verið sé að reyna að nota þessa ACER stofnun til að ná auknu valdi yfir orkuauðlindum Íslendinga. Og tökum undir með honum þegar hann segir að það sé hneyksli.