149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi áðan hvað þessi umræða hefði þrátt fyrir allt skilað okkur áfram veginn og þetta andsvar hv. þingmanns er einmitt lýsandi dæmi um hvað hv. þingmaður kemst, eftir að hafa kynnt sér samninginn sjálfan og reglurnar sem hann byggir á og framkvæmd hans, í raun að kjarna málsins um það hvernig þessi samningur virkar og fyrir vikið hvernig er rétt fyrir okkur að nálgast hann og hvað ber að varast.

Ég tek undir það, og það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, að það ber sérstaklega að varast að innleiða en vonast um leið til þess að innleiðingin hafi ekkert að segja, því að um það atriði fer Evrópusambandið ekki í neinar grafgötur, heldur ekki ESA. Það er algjörlega skýrt að menn hafa ýmsa valkosti til að tala sínu máli, í tilvikum eins og þessu að setja það í sáttafarveg sem á að miða að því að finna lausn sem allir geta sætt sig við. En þegar menn innleiða eru þeir búnir að innleiða og þá verður ekki aftur snúið.

Við höfum líka fengið að heyra það í þessari umræðu og störfum í nefndum að það þekkjast þess engin dæmi að ríki hafi sett einhliða fyrirvara við innleiðingar og að slíkir fyrirvarar hafi haft nokkurn skapaðan hlut að segja, enda er ekki, í samræmi við það sem hv. þingmaður benti á, gert ráð fyrir því að menn fari þá leið. Þvert á móti er tekið fram að þannig gangi það ekki fyrir sig.