149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. minni hluta (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þegar þetta er sett svona skýrt fram er maður eiginlega alveg mát. Hvernig á maður að fara því að útskýra að stjórnvöld, hvort sem er á Íslandi eða í Noregi, skuli leitast við að fá þjóðþing þessara landa til að samþykkja eitthvað sem gengur algjörlega í berhögg við það sem útlistað er með þetta skýrum og afdráttarlausum hætti? Norsku fyrirvararnir svokölluðu, sem voru þó raunverulegir fyrirvarar að því leyti að þeir voru upplistaðir, sagt hvaða niðurstöðu hver og einn fyrirvari ætti að skila og svo tekið fram að leiða ætti þá í lög. En maður veltir fyrir sér hvort þarna hafi hugsanlega átt sér stað blekkingar gagnvart norska þinginu í ljósi þess að ekkert samráð var haft um þessa fyrirvara við Íslendinga, hvort stjórnvöld þar í landi hafi vonast til þess að norska þingið myndi trúa því, sem það gerði kannski að hluta til, að hægt væri að setja svona einhliða fyrirvara og treysta á að norskir þingmenn kynntu sér ekki eðli þessara mála eins vel eins og hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson hefur gert.

Þetta undirstrikar a.m.k. fáránleika málatilbúnaðar íslenskra stjórnvalda því að þeirra fyrirvarar, ef fyrirvara skyldi kalla, eru ekkert annað en almennar viljayfirlýsingar.