149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður höfum báðir fjallað nokkuð um sjónarmið Hjörleifs Guttormssonar. Ég rakti það áðan hvað hann er almenningi að góðu kunnur fyrir sín ritverk á sviði náttúrufræða. Árbók Ferðafélagsins er perla á hverju ári og til á fjöldamörgum íslenskum heimilum og hann hefur fjallað um Austfirðina, sérstaklega Héraðið, með framúrskarandi hætti. Eins og hv. þingmaður nefndi hefur hann mjög glögga þekkingu og innsýn í málefni sem snúa að Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég leyfði mér í upphafi ræðu minnar áðan að vitna til ummæla hans í umsögn hans þar sem hann fjallar um áhrif af því að innleiða þennan þriðja orkupakka á raforkuverð hér á landi. Maður spyr sig, í ljósi þess til að mynda að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa fjallað um þetta í blaðagreinum nýlega, hvort ekki sé nauðsynlegt að kalla eftir hagfræðilegri álitsgerð um þetta þýðingarmikla mál, hver áhrifin yrðu af innleiðingu pakkans á orkuverð til heimila og atvinnufyrirtækja. Við vitum að þetta gæti náttúrlega snert fjölmarga aðra þætti eins og vísitölu, skuldabyrði, vaxtagreiðslur og ég veit ekki hvað.