149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ítrekað komið fram í máli okkar sem hér stöndum vaktina að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason hefur verið að leita að þessum fyrirvörum. Hann hefur verið að leita að þeim eftir upplýsingum sem borist hafa frá ýmsum þingmönnum sem eru fylgjandi þessum orkupakka og hafa gjarnan sagt að fyrirvarinn sé hér og þar og allt þetta — en þeir finnast hvergi. Það eina sem við vitum er að stærsti fyrirvarinn sem gerður verður verður settur fram í reglugerð síðar.

Ég er ekki löglærður maður, ólíkt sitjandi forseta, og hef hvorki reynslu af málflutningi né kennslu í lögum, eins og hann hefur, og þetta er kannski eitt í viðbót sem færir manni heim sanninn um hversu dýrmætt það væri að fá stjórnarliða til umræðunnar, ég tala nú ekki um menn af kalíberi, ef ég má orða það þannig, sitjandi hæstv. forseta sem gæti eflaust farið mjög gaumgæfilega með okkur yfir þessi mál. Því miður hefur enginn stjórnarþingmaður treyst sér til að koma hingað og eiga við okkur orðastað. Það er mjög miður vegna þess að, eins og ég sagði áðan, þjóðin fylgist meira með þessari umræðu en alþingismenn sjálfir. Það er þannig. Í sjálfu sér er það náttúrlega gott og það er mjög ánægjulegt að finna að þjóðinni er ekki sama frekar en okkur, það herðir okkur í baráttunni. En á sama hátt dregur aðeins úr manni að vita til þess (Forseti hringir.) að fylgismenn samningsins eru ekki reiðubúnir að koma hér og flytja fyrir okkur lærðar ræður um það hvers vegna við ættum að samþykkja hann svo búinn.