149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má margt segja um þingflokk Sjálfstæðisflokksins en eitt er víst, hann skortir ekki lögspekinga. Þar eru lögspekingar á hverju strái og ég held að það gæti verið gott fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins og fylgismenn Sjálfstæðisflokksins að svo sem eins og einn þeirra sæi sér fært að koma hingað og taka snerru við okkur og líkt og hv. þingmaður sagði hér áðan að gera hann, og okkur þá jafnvel öll, að ómerkingum í þessu máli. Það hlýtur að vera freistandi tilboð fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins að vera í því dauðafæri að koma hingað og slá okkur köld.

Enn leyfi ég mér að auglýsa eftir því að fylgismenn orkupakkans mæti hingað til leiks og flytji okkur eins og eina drápu um ágæti þessa pakka, sannfæri okkur, komi með söluvæna ræðu, eins og maður segir, og sannfæri okkur í eitt skipti fyrir öll um að við séum bara á krákustigum og vöðum villu og svíma.

Þar sem ég veit að hæstv. forseti er fremstur meðal jafningja í sínum þingflokki sem lögspekingur myndi ég mæla með, mest af öllu myndi ég náttúrlega vilja það, að hann kæmi hingað. Ég veit að hann er önnum kafinn nú en það koma tímar. Ég vildi að hann kæmi hingað og flengdi okkur svolítið lögfræðilega. Fleiri eru þó til í hópnum þannig að þetta er almenn herhvöt til þeirra að láta sjá sig hér og taka þátt.

Ég ætla að segja það enn einu sinni að þjóðin fylgist meira með þessari umræðu en alþingismenn sjálfir. Einhvern tímann hefðu manni þótt það tíðindi.