149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:16]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég hef í undanförnum ræðum mínum verið eftir mætti að renna yfir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 72/2009, sem er hryggjarstykkið í orkupakka þrjú, eitt grundvallargagnið, og hef farið yfir nokkrar greinar þeirrar tilskipunar og er að svo komnu máli í 37. gr. um skyldur og valdsvið eftirlitsvalds.

Ég var kominn að því að ræða 6. tölulið 37. gr., um að eftirlitsyfirvöldin, með leyfi forseta:

„skulu bera ábyrgð á og ákveða eða samþykkja a.m.k. aðferðafræðina sem notuð er til að reikna út eða að setja skilmála og skilyrði fyrir eftirfarandi með hæfilegum fyrirvara áður en þau taka gildi:

a) tengingu og aðgangi að landsbundnum netum, þ.m.t. gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu eða aðferðafræði þeirra. Þessar gjaldskrár eða aðferðafræði skulu gera kleift að nauðsynlegar fjárfestingar geti átt sér stað í netum með þeim hætti að þessar fjárfestingar tryggi virkni netsins.“

Hvað þýðir þetta? Jú, að eftirlitsyfirvaldið, sem er þá Orkustofnun, sem er búið að aðskilja frá framkvæmdarvaldinu og gefa heimild til sektargreiðslna, sem eru yfirleitt á höndum dómstóla, skuli setja, með hæfilegum fyrirvara reyndar, skilyrði fyrir tengingunni og aðgangi að landsbundnum netum, þ.e. flutningskerfi raforku sem er í eigu íslensku þjóðarinnar.

Þá er komið einhvers konar yfirvald sem er alþjóðlegt, lýtur þjóðarétti sem gengur landsrétti framar og er farið að sýsla með hvernig við högum gjaldskrám og með aðferðafræði um það hverjir geti tengst landsbundna netinu okkar, íslensku þjóðarinnar, sem við byggðum og reistum á kostnað skattborgara. Það verður sem sagt gert á forræði yfirþjóðlegrar stofnunar og samkvæmt lögum sem eru Evrópulög.

Áfram segir:

„b) veitingu jöfnunarþjónustu sem skal leyst af hendi á sem hagkvæmastan hátt og veita notendum dreifikerfisins viðeigandi hvatningu til að jafna innmötun (in-put) og úttekt (off-take) þeirra. Jöfnunarþjónusta skal veitt án mismununar og byggjast á hlutlægum viðmiðunum og …

Ef einhver einkaaðili, lögaðili, innlendur eða erlendur, vill tengjast netinu sem er í eigu þjóðarinnar skal beita einhvers konar jafnræðissjónarmiðum um það, sem er þá á forræði — ég veit að ég er að fara hægt yfir þetta og þetta er eins og tuð og stagl, en ég sé ekki betur en að það verði hreinlega að tyggja þetta upp hérna og gefa í teskeiðum til að það skiljist hvað felst raunverulega í þessu. Ég endurtek:

„Jöfnunarþjónusta skal veitt án mismununar og byggjast á hlutlægum viðmiðunum og

c) aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri, þ.m.t. málsmeðferðarreglur við úthlutun flutningsgetu og viðbrögð við kerfisöng.“

Ég sé ekki betur en þarna sé búið að ráðstafa til yfirþjóðlegrar stofnunar valdi yfir dreifikerfi raforku, sem er hluti af auðlindinni okkar, í hendur yfirþjóðlegri stofnun.

Enn fremur segir í 13. tölulið:

„Aðildarríkin skulu koma á viðeigandi og skilvirku fyrirkomulagi stýringar, stjórnunar og gagnsæis til að forðast misnotkun á yfirburðastöðu einkum þegar hún kemur niður á neytendum og undirverðlagningu. Í þessu fyrirkomulagi skal tekið tillit til ákvæða sáttmálans, …“

Ég næ ekki að klára þetta, herra forseti. Ég bið um að ég verði settur aftur á mælendaskrá. Ég þarf að útskýra þennan 13. tölulið betur.