149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um að virðulegur forseti sé a.m.k. jafn heillaður og ég af málflutningi hv. þingmanns og skýrleika framsetningarinnar. Þetta segi ég vegna þess að ég veit að sá hæstv. forseti sem nú situr kann að meta skýrleika í framsetningu og að menn lesi lögin, lesi grundvallarupplýsingar, til að átta sig á því til hvers er raunverulega ætlast, hver markmiðin séu og áhrifin.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja þetta svona skýrt og skilmerkilega fram. Það er í rauninni afskaplega sérkennilegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa haft frumkvæði að því að útskýra þetta svona skýrt og skilmerkilega, fara einfaldlega í grunnheimildirnar, í reglugerðirnar, og útskýra út frá þeim hvaða áhrif þessi innleiðing muni hafa.

En ég óttast að það sé einmitt vegna þess að ríkisstjórnin vilji ekki að menn setji sig inn í nákvæmlega þessa hluti eins og hv. þingmaður var að lýsa áðan, að stjórnvöld séu að vonast til að menn einfaldlega líti fram hjá raunverulegu eðli þessa máls.

Það sýnir þá enn og aftur mikilvægi þessarar umræðu sem á sér stað nú, að þetta komi fram í dagsljósið, hið raunverulega eðli þessa þriðja orkupakka og hvaða áhrif hann muni hafa.

En það er líka gagnlegt að líta til raundæma þar sem þessum reglum hefur verið beitt. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann kannist við til að mynda dæmið um Kýpur, sem er eyja eins og Ísland. Þar hefur einmitt reynt á þetta þar sem framkvæmdir við væntanlegan sæstreng hafa verið undir handleiðslu ACER og stofnunin fylgt nákvæmlega þessu fyrirkomulagi.