149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:24]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo um þessa þröngu túlkun — eða túlkun mína á þessari innleiðingu — að það virðist hafa verið meiri áhugi fyrr í umræðunni á því að vera í salnum og taka við okkur andsvör og snerrur. En þegar umræðan fór að verða nákvæmari og ítarlegri hurfu stjórnarliðar og fylgismenn orkupakkans á brott, með þeirri undantekningu reyndar að þegar komu tvær sjónvarpsmyndavélar í upphafi þingfundar sá fólk ástæðu til að sýna sig í salnum, kannski til að sýna kjósendum fram á að það væri að sinna þingskyldu sinni. En ég skal ekki fullyrða um það.

En hér er verið að lýsa meginlandshugmyndafræði sem ég hef fullan skilning á — fyrir hönd Evrópubandalagsins. Þetta á við þar. Þetta er afar skýrt. Þetta eru engin undanbrögð eða reykur í speglum, svo maður snari nú yfir á hið ástkæra og ylhýra.

Varðandi ACER og Kýpur verð ég að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér það mál nákvæmlega. En ég hef hlustað með nokkurri athygli á ræður hv. þingmanns, eða öllu heldur heyrt að hann ætli að fara yfir það í ræðum seinna, og hlakka mjög til að heyra nánar um aðkomu ACER í því tilfelli.