149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega gott að hafa hvort tveggja til hliðsjónar, annars vegar reglurnar og lögin eins og þau eru skrifuð og lýsingar á markmiðum þeirra, og svo hins vegar raunveruleg dæmi um hvernig því er fylgt eftir. Það vill svo vel til fyrir okkur Íslendinga sem erum að ræða þetta nú á árinu 2019 að Evrópusambandið innleiddi þennan orkupakka árið 2009. Því er komin töluverð reynsla á hvernig þetta á að virka.

Eins og hv. þingmaður nefndi er markmiðið alveg í samræmi við hugmyndafræði ESB og markmiðin um aukna samþættingu og ég myndi segja aukna miðstýringu. Þetta er allt saman skiljanlegt frá sjónarhorni þeirra. En þetta er alls ekki skiljanlegt og alls ekki ásættanlegt út frá okkar sjónarhorni, vegna þess að hagsmunirnir eru svo gjörólíkir. Það sama á ekki við hvað varðar til að mynda verðlagsmál á orkunni og þann skort sem er á grænni orku í Evrópusambandinu annars vegar og þá gnótt sem er á slíkri orku á Íslandi hins vegar. Þar af leiðandi eiga sömu lausnirnar ekki við.

En það sem ég fæ enn ekki botn í eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanns nú og fyrri ræður, þar sem hann fer svona skýrt yfir hlutina, lið fyrir lið, fer einfaldlega í greinarnar sem allt byggir á, er hvers vegna stjórnarmeirihlutinn hefur ekki fengist til að ræða málið á þeim forsendum. Mér dettur ekki annað í hug en að þau þá, fyrir vikið, vilji forðast að ræða þetta á þessum forsendum og álykta sem svo að þau vilji fela staðreyndirnar. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að ég sé að ganga of langt með því að velta slíku fyrir mér?