149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sagt það áður að hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson hefur eiginlega unnið meira að kynningu þessa máls við þessa umræðu en ríkisstjórnarflokkarnir sameiginlega allan tímann sem málið hefur verið á dagskrá. Það hefði í sjálfu sér verið ánægjulegt og kannski nauðsynlegt fyrir hann að halda þessa kynningu t.d. fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins, þannig að menn gætu orðið einhvers áskynja um það um hvað málið snýst raunverulega. Það virðist vera mjög á huldu að menn hafi gert það heldur virðast menn hafa látið leiðast út í það, margir hverjir tregir og hafa lýst því hér, eins og hv. þm. Páll Magnússon og fleiri, sem hafa lýst því með miklum trega hvernig þeir hafa ánetjast þessu máli án þess að vilja það, og komið til fylgilags við það nauðugir viljugir.

En það hefur verið mjög áhugavert og uppvekjandi að fylgjast með því hvernig hv. þingmaður leiðir þessa hluti fram. Ég skal viðurkenna að ég er svolítið upptekinn af þessu valdframsali, mjög upptekinn af því. Ég er mjög upptekinn af því þegar virtir lögspekingar stíga fram og segja: Þetta er valdframsal. Þar sem alltaf er vitnað í aðeins tvo þeirra eru þeir fleiri sem hafa varað við þessu. Við höfum verið að vitna í einn sem heitir Eyjólfur Ármannsson og hefur meðal annarra varað mjög sterklega við þessu.

Mig langar kannski til að biðja hv. þingmann að reifa það aðeins fyrir okkur með þetta valdframsal. Hann er búinn að fara mjög vel yfir hvernig það birtist. En ég bið hann að fara aðeins dýpra í það hvernig Evrópusambandið í sjálfu sér heldur á öllum spilum (Forseti hringir.) eins og þetta mál er núna vanreifað og illa fram sett. Ég spyr hvort hann gæti farið aðeins yfir það fyrir okkur.