149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var býsna magnað. Þarna talaði ekki aðeins mikill stuðningsmaður EES-samningsins heldur maðurinn sem stundum hefur verið kallaður höfundur hans fyrir Íslands hönd og útskýrir svo að enginn getur velkst í vafa að samningurinn tryggi þau úrræði sem við höfum verið að boða að þurfi að beita gagnvart þriðja orkupakkanum.

En hann lætur ekki þar við sitja heldur bendir líka á, eins og við höfum reynt að benda á hér í þingsal, að menn séu fyrst að setja þennan samning í hættu ef þeir treysta sér ekki til að verja þann rétt sem hann tryggir.

Þess vegna og í því samhengi sérstaklega við þessi skýru og afdráttarlausu orð snýst hræðsluáróðurinn, sem reynt var að halda á lofti til að knýja á um stuðning sem flestra þingmanna við þennan orkupakka, hræðsluáróðurinn um að við gætum sett EES-samninginn í hættu ef við létum ekki einfaldlega undan, fullkomlega upp í andhverfu sína þegar menn skoða staðreyndir málsins og sjá það og heyra svona skýrt frá manninum sem þekkir samninginn kannski best af öllum, að það sé einmitt innleiðing eins og sú sem stendur hér fyrir dyrum, að menn þori ekki að verja eigin hagsmuni, sem muni stefna þessum samningi í hættu.

Og því spyr ég hv. þingmann: Nái þessi orkupakki fram að ganga eins og lagt er upp með, hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það muni hafa á viðhorf íslensks almennings til EES-samningsins?