149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef leitt fram tvö vitni í ræðum mínum. Þau tvö vitni eru Davíð Oddsson, sem var forsætisráðherra á þeim tíma, og Jón Baldvin Hannibalsson, sem var utanríkisráðherra á þeim tíma. Þessum tveimur mönnum ber fullkomlega saman um þau tvö atriði sem eru mikilvægust í því samhengi sem við ræðum núna. Annað er að Íslendingar eiga rétt á því að beita 102. gr. Reyndar er þriðja vitnið sammála þessu, Carl Baudenbacher. Hann tók það sérstaklega fram í greinargerð sinni.

Hitt atriðið sem þeir Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson eru sammála um lýtur að spurningu hv. þingmanns. Þeim ber nákvæmlega saman um þetta atriði. Það er að ef Íslendingar eiga að horfa upp á að mál af þessu tagi þurfi þeir að kokgleypa möglunarlaust en eiga ella á hættu að samningurinn fari í eitthvert uppnám, er hætt við að það grafist fljótt undan stuðningi almennings við þátttöku okkar í þessu samstarfi.

Þessum ágætu mönnum ber fullkomlega saman um þetta atriði og orða það hvor um sig framúrskarandi vel, eins og vænta mátti.

Þessar vitnaleiðslur hafa því skilað þeim árangri sem hér liggur fyrir, að þeim mönnum ber saman sem báru mesta ábyrgð á þessu máli á sínum tíma þegar þessi samningur var gerður og síðan staðfestur.