149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru fordæmi fyrir því að lagagrein, jafnvel grein í stjórnarskrá sem legið hefur óhreyfð um langan aldur, hafi verkan þegar á reynir.

En það mætti kannski hugsa sér að svo slysalega tækist til að eldsvoði yrði á heimili. Ætti þá að sleppa því að nota slökkvitækið af því að það hafi aldrei verið notað áður? Eru þetta eitthvað svipuð rök?

Hér eru persónur og leikendur í þessu máli. Ég leyfi mér að nefna prófessor dr. Baudenbacher sem sagði, eftir því sem ég tók best eftir, eftir því sem líka var hermt, eina lögfræðilega setningu sem virkilegt hald er í þegar hann segir að 102. gr. sé gild og Íslendingar geti beitt henni.

Það er hins vegar önnur saga að hann hefur uppi pólitískar vangaveltur og bollaleggingar um hversu heppilegt það sé að beita henni.

Það nær náttúrlega engri átt að verið sé að brigsla mönnum um einangrunarhyggju eða eitthvað af því tagi þó að þeir hafi uppi viðleitni til þess að gæta sjálfsagðra og eðlilegra hagsmuna. Ég leyfi mér að árétta og undirstrika það sem Jón Baldvin Hannibalsson sagði í umsögn sinni að það komi ekki til greina að aðgangur að auðlindum sé látinn af hendi fyrir aðgang að markaði. Þetta er grundvallaratriði, herra forseti.