149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að hafa gaman af lífinu, jafnvel þó að maður sé að ræða alvarleg mál. En nú er hv. þingmaður ansi vel kunnugur í myrkviðum Sjálfstæðisflokksins (ÓÍ: Var það.) — var þar lengi og hjó sér leið um myrkviði þess flokks. Nú háttar svo til að þessi flokkur er 90 ára gamall á laugardaginn og ég óska honum til hamingju með það. Og fyrst hæstv. forseti situr hér þessa stundina er hentugt að benda honum á, eins og ég hef bent fleirum á í ræðum í dag, að það væri kannski ráð fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, á laugardaginn milli kl. 11 og 15 uppi í Valhöll, að ræða þar við almenna flokksmenn yfir kaffi og tertu því að mikill meiri hluti almennra flokksmanna Sjálfstæðisflokksins er á móti þessum orkupakka.

Ég var nú að vona, herra forseti, að menn myndu nota þennan laugardagsformiddag til að hlusta á grasrótina í flokknum og fá frá henni góðar leiðbeiningar um hvað gera skuli í þessum orkupakka. Ég vænti þess að hann verði enn á dagskrá þingsins að morgni laugardags og það væri hollt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hlusta. Þeir eru nýbúnir að vera í rútuferð um landið en þeir virðast ekki hafa hlustað á nokkurn mann. Þeir eru svo fastir í þeim ásetningi sínum að troða orkupakkanum hér í gegn. Því lauma ég því að hæstv. forseta að kannski sé ráð að nýta tækifærið yfir kaffi og tertu á laugardaginn.

En mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvað hann telur hafa orðið til þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins virðist vera svona gjörsamlega úr takti og úr sambandi við hinn almenna flokksmann — hefur hv. þingmaður skýringu á því?