149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja það hér að í mínum huga hefur það verið ein af ráðgátum nútímastjórnmála hér á landi hvernig á því stóð að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi ljá máls á því að leggja nafn sitt við Icesave-málið með þeim hætti sem hann gerði. Reyndar fengust ekki allir þingmenn til að styðja það mál en flokksforystan gerði það.

Ritstjóri Morgunblaðsins hefur ritað merkan pistil þar sem hann fjallar um utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann, Styrmir Gunnarsson, lýsir því áliti á sinni vefsíðu að það séu mjög alvarleg mistök af hálfu Sjálfstæðisflokksins að standa að þessum þriðja orkupakka. Hann rifjar upp eitt dæmi sem er mjög áhugavert og það er frá 1970–1971 þegar það var eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki skynjað tíðarandann og hélt því fram á þeim tíma að við ættum að fara aðra leið en farin var í landhelgismálinu. Það varð flokknum dýrkeypt. Hann lent utan ríkisstjórnar eftir kosningarnar 1971.

Nú er ekki bara eina ráðgátu við að glíma, ráðgátuna um stuðninginn við Icesave, heldur ráðgátuna um stuðning við þriðja orkupakkann, algerlega að nauðsynjalausu. Og það er líka mjög sérkennilegt af hverju málið er sótt af svona miklu kappi. Áður var því haldið fram að þetta mál myndi kannski koma fram á Alþingi vorið 2019, kannski haustið 2019, og nú eru menn hér í einhverjum spenningi að reyna að ljúka þessu á þessum fögru vordögum í maí 2019. Af hverju?