149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Í raun og sanni, herra forseti, með stjórnarflokkana þrjá í ljósi forsögunnar og málatilbúnaðar hér áratugum saman, ef allt væri með felldu þar myndi náttúrlega ekki nokkur þeirra ljá máls á þessu. Alþýðubandalagið, sem áður hét en heitir núna Vinstrihreyfingin – grænt framboð, er orðinn viðskila við rætur sínar. Framsóknarflokkurinn er eins og hann er. Sjálfstæðisflokkurinn hleypur á eftir alls konar hugdettum og hugmyndum í samtímanum og sýnir ekki nauðsynlega og nægjanlega festu. Um þetta mætti hafa langt mál. En það er einhvern veginn þannig komið fyrir þessum flokkum að þeir flokkar bregðast sem hefði átt að mega reiða sig á í nákvæmlega máli eins og þessu.

Auðvitað er ekkert erfitt að skilja að Samfylkingin og Viðreisn, sem eru eins máls flokkar og eru hér bara utan um aðild að Evrópusambandinu, samþykki þennan orkupakka óséðan, þeir lýstu því yfir áður en málið var lagt fram á Alþingi og áður en nokkur hafði séð nokkur gögn að þeir myndu styðja þetta mál. Hvernig ákvarðanir eru teknar eða hvernig stefna er mótuð í þeim söfnuði Pírata sem hér er er náttúrlega ekki fyrir dauðlega menn að átta sig á. Það er kannski skiljanlegt að upplausnarflokkur eins og þar fer hafi lent þarna megin.

En það yrði mjög ólánlegt og óheppilegt ef málið yrði samþykkt. Málatilbúnaðurinn styður það ekki. Svo mikið er víst, herra forseti.