149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég ætlaði að klára mál mitt með því að skoða aðeins greinargerðina með þingsályktunartillögunni og lesa upp það sem segir á bls. 3, með leyfi forseta:

„Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara“ — sem við höfum ekki fengið að sjá — „um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar …“

Ég spyr enn og aftur: Hvaða reglugerð er hér átt við? Er það reglugerðin sem á að undirrita uppi í Skuggahverfi eða er það reglugerð Evrópusambandsins sem við ætlum að innleiða? Hvernig ætlum við að fara að því að endurskoða reglugerð Evrópusambandsins? Hvernig ætlum við að fara að því þegar við erum búin að innleiða hana?