149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þessar tölur segja manni helst það að sú sýn á stjórnmál sem Miðflokkurinn er t.d. stofnaður um er að hlutgerast. Við höfum jú talað um það að berjast gegn kerfisræði. Við höfum talað um það að koma ný inn, sem við gerðum, við getum náttúrlega ekki gert það aftur, en við gerðum það rækilega. En hugmyndir þessa flokks sem við skipum hér eru enn þá ferskar og nýjar. Ég er ekki viss nema sambærilegir atburðir gætu gerst hér á landi, sérstaklega í ljósi þess þegar þessir rótgrónu flokkar reyna að troða atriði eins og þriðja orkupakkanum ofan í hálsmálið á fylgismönnum sínum. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Það er (Forseti hringir.) eins og þeir hugsi: Það skiptir ekki máli hvað við gerum, þeir koma samt og kjósa okkur. Ég held að það sé ekki rétt metið.