149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þessar pælingar. En svo framarlega sem fyrirtækið greiðir það sem við getum kallað eðlilegt verð fyrir orkuna, sem sagt ekki það hátt að það sé hindrun og komi í veg fyrir uppbyggingu og fjárfestingu, en ekki það lágt að verið sé að gefa fyrirtækinu óeðlilegan afslátt, skila þær tekjur sér þó inn í samfélagið í gegnum Landsvirkjun. Það eru gríðarlegar tekjur, eins og við sjáum kannski best af því að menn eru farnir að ræða um að nota þær í svokallaðan þjóðarsjóð. Og svo er það allt hitt sem ég nefndi áðan, störfin, tekjur starfsmannanna og allt það.

En athugasemd hv. þingmanns beinir hins vegar sjónum að einni af stóru hættunum í tengslum við þriðja orkupakkann. Hún er sú að orkuframleiðslan sjálf yrði rekin með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsir, að orkufyrirtækin hér yrðu í eigu erlendra fjárfestingarsjóða, svo dæmi sé nefnt. Þeir tækju lán erlendis fyrir framkvæmdinni. Þegar þeir svo færu að fá tekjur af raforkusölu til útlanda myndu þeir nota það til að greiða niður þessi lán, borga lága skatta á Íslandi, jafnvel enga. Afleiðingin yrði þá sú að verið væri að selja íslenska orku til útlanda þannig að hún myndi skapa störf í útlöndum, hún væri notuð í útlöndum til að búa til verðmæti þar. Og tekjurnar af orkusölunni rynnu líka til útlanda.

Hvað yrði eftir á Íslandi við þessar aðstæður? Hvað fengju Íslendingar fyrir þessa þjóðarauðlind, ég held að óhætt sé að segja: mikilvægustu auðlind þjóðarinnar, ef þessar yrðu aðstæðurnar?