149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að grípa aðeins niður í umsögn Samtaka iðnaðarins. Það er að mörgu leyti góð og vel unnin umsögn. Þeir ræða um mikinn ávinning af EES-samningnum og ég skal svo sem alveg taka undir það. Síðan tók ég sérstaklega eftir því að þeir segja að samkeppni á raforkumarkaði sé til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. Við höfum farið í gegnum það og ég tel að það hafi ekki orðið raunin að hér sé samkeppni sem skipti neytendur neinu máli. En niðurstaða Samtaka iðnaðarins er þessi, með leyfi forseta:

„Í ljósi framanritaðs mæla SI með því að umrædd þingmál verði samþykkt og að þriðji orkupakkinn verði þar af leiðandi samþykktur hér á landi.“

Þetta er athyglisverð niðurstaða í ljósi þess sem hér segir um sæstreng. Það segir í umsögninni að sæstrengur samræmist ekki stefnu Samtaka iðnaðarins. Nú er ljóst að þetta mál, þ.e. orkupakki þrjú, innleiðingin sem ríkisstjórnin stefnir að með þessu máli, er undirbúningur að sæstreng. Ég held að það sé alveg ljóst vegna þess að það er svo margt í þessu ferli sem lýtur að því að þetta verði hluti af sameiginlega markaðssvæðinu.

Þess vegna langar mig að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort hann hafi orðið var við þetta í þessari umsögn og hvað honum finnst um þessa, sem ég vil kalla, þversögn.