149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:38]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Mig langar í næstu ræðum mínum, þar sem ræðutíminn er skammur, að fara í smá útleiðslu á hinum meintu lagalegu fyrirvörum út frá ræðum fylgismanna orkupakkans sem hafa komið fram í fyrri og seinni umræðum þar sem það virðist trauðla vera hægt að fá fylgismenn innleiðingarinnar til að tjá sig hér eftir að við höfum kafað umtalsvert dýpra í innihald innleiðingar og tilskipunar Evrópusambandsins nr. 72/2009 og reglugerðir sem fylgja þeirri innleiðingu.

Ansi víða í ræðum fylgismanna innleiðingarinnar koma fram fullyrðingar sem halda að mínu viti illa vatni. En mig langar, með leyfi forseta, til að lesa hér upp úr ræðu hv. þingmanns og formanns utanríkismálanefndar og flutningsmanns meirihlutaálits utanríkismálanefndar, seinni umræðu, en þar segir hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir:

„Þá eru að lokum yfirráð yfir auðlindum. Þriðji orkupakkinn hefur, eins og áður segir, engin áhrif á yfirráð Íslands yfir náttúruauðlindum sínum. Þessi skilningur var áréttaður í sameiginlegri yfirlýsingu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Miguels Arias Cañete, framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, frá 20. mars sl. Í yfirlýsingunni kom fram að gildandi ákvæði þriðja orkupakka Evrópusambandsins hefðu engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar Evrópusambandsins lægi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.“

Í innleiðingu orkupakkans, sem er tilskipun nr. 72/2009, segir í 35. gr., í 4. gr. b-lið ii., um tilnefningu og sjálfstæði eftirlitsyfirvalda, að Orkustofnun, sem er þá orðið sjálfstætt yfirvald og tekur ekki við skipunum frá ríkisvaldinu, með leyfi forseta:

„… leiti ekki eftir eða taki við beinum fyrirmælum frá neinni ríkisstofnun eða öðrum opinberum aðila eða einkaaðila við framkvæmd eftirlitsverkefnanna. Þessi krafa er með fyrirvara um náið samstarf, eftir því sem við á, með öðrum viðkomandi landsyfirvöldum“ — sem eru þá í öðrum löndum — „eða um almennar viðmiðunarreglur sem gefnar eru út af ríkisstjórninni án þess að hafa áhrif á eftirlitsvald og skyldur skv. 37. gr.“

Hæstv. forseti. Hvernig koma menn því saman að þetta hafi engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og að ákvörðunarvald yfir raforkusæstrengjum milli Íslands og innri raforkumarkaðar Evrópusambandsins liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum? Þessar ákvarðanir liggja hjá landsreglaranum miðað við innleiðinguna og miðað við tilskipun 72/2009.

Ég held að það sé orðið deginum ljósara að hér er búið að halda fram hlutum sem halda illa vatni og yfirlýsingar þeirra sem eru fylgjandi þessari innleiðingu eru þess eðlis að þrátt fyrir að menn hafi haldið því fram að málið hafi verið gríðarlega vel unnið og mikill tími settur í það, er það niðurstaða mín að ekki hafi nægum tíma verið varið í það. Ég ætla ekki að segja að fólk hafi ekki verið að reyna að vanda sig. En ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa lesið ræður og yfirlýsingar stjórnarliða, að málið hafi borið að með bráðum hætti og undir miklum þrýstingi og það útskýri hvers vegna málið er unnið eins og hér gefur að líta.