149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þær yfirlýsingar eru mjög sérstakar. Maður veltir fyrir sér hvers vegna sé verið að fara þessa leið þegar hin eina rétta og löglega leið er að fara með málið fyrir nefndina sjálfa. Það er sú leið sem er til þess gerð að leysa ágreining og það stendur sérstaklega í greininni að hún sé til þess.

En það er einhver ógurleg hræðsla hjá ríkisstjórninni þar sem hún fer leið sem er óskilgreind að mínu mati. Því er borið við að EES-samningurinn geti verið í uppnámi. En það er hins vegar algjörlega órökstutt.

Ég spurði hæstv. ráðherra utanríkismála einmitt að því í dag hvað hefði farið í milli þeim embættismönnum sem hann kvaðst hafa hitt og rætt við um það hvernig þeir litu á það ef málið færi fyrir sameiginlegu EES-nefndina og hvort þeir hafi lýst áhyggjum sínum yfir því.

Það komu engin svör frá ráðherra um þetta. Sem segir manni það að ef þeir hefðu haft áhyggjur af því að það gæti haft alvarlegar afleiðingar að fara með málið fyrir nefndina hefðu þeir náttúrlega sagt hæstv. ráðherra það. En hann vill hins vegar ekki svara þessu, sem gerir nokkuð ljóst í mínum huga að þeir hafi ekki haft neinar áhyggjur. En hæstv. ráðherra vill bara ekki segja okkur frá því.

Þannig blasir þetta við mér alla vega. Ég verð að segja það.