149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur sendi utanríkismálanefnd umsögn sem ég gat ekki annað heyrt en að hæstv. ráðherra hefði ekki lesið, og auk þess sá hann sig knúinn til að tala niður til þessa ágæta lögmanns, ég veit ekki hvers vegna hann gerði það. Fram kemur í umsögn Eyjólfs að þar sem sameiginlegi skilningurinn kemur fram þar séu mótsagnir og óskýrleiki.

Það segir hér, með leyfi forseta:

„Að því er varðar innleiðingu þriðja orkupakkans á Íslandi eru aðstæður á Íslandi verulega frábrugðnar þeirri sem er annars staðar í löndum þar sem orkunet tengjast yfir landamæri.“ — Þetta sé staðfesting á því að Ísland sé eyja. — „Þess vegna hentar hið sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland, sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti, þar sem komist er hjá allri ónauðsynlegri byrði, best fyrir íslenskar aðstæður.“

Svo mörg voru þau orð.

Það sem lögmaðurinn skilur ekki alveg og segir vera óljóst er hvaða sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland EES-nefndin sé að samþykkja sem hið besta fyrir íslenskar aðstæður. Það er engin lýsing á því. Hvað innifelur það? Um hvað snýst það?

Eyjólfur, þessi ágæti lögmaður, segir svo, með leyfi forseta:

„Eina sérstaka fyrirkomulagið sem hefur þýðingu fyrir Ísland er að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands og landfræðilegrar stöðu landsins sem ríkis utan innri raforkumarkaðar ESB.“

En þetta er ekkert skýrt í þingsályktunartillögunni.

Þannig að maður veltir fyrir sér: (Forseti hringir.) Hvaða lögformlega stöðu hefur þessi undirstrikaði sameiginlegi skilningur?