149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:56]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég kom í ræðu minni áðan stuttlega inn á forsendur þess að ég teldi ekki að nokkurt hald væri í þeim lagalegu fyrirvörum sem búið væri að lýsa. En eins og ég kom inn á, og til þess að tengja ræðurnar saman, skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríki samkvæmt EES-samningnum að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild samkvæmt 103. gr. — þar er verið að vísa í, að mig minnir, 97. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um að ríkin tali einum rómi, þess vegna er það „eitthvert þessara ríkja“ — til að setja fyrirvara um að ákvörðunin geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.

Í tilviki þessarar tilteknu innleiðingar og ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar hafa tvö ríki sett stjórnskipulegan fyrirvara, eða reyndar settu öll ríkin stjórnskipulegan fyrirvara en Liechtenstein hefur aflétt honum. Noregur hefur gert það með átta fyrirvörum og Ísland hyggst gera það með tveimur. Þeir taka ekki gildi fyrr en öll ríkin hafa gert það og tala einum rómi.

En varðandi það að beita fyrir sig 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið langar mig til að koma aðeins inn á það sem segir í 4. mgr. 102. gr. í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með leyfi forseta.:

„Ef ekki er unnt að komast að samkomulagi um breytingar á viðauka við samning þennan, þrátt fyrir beitingu undanfarandi málsgreinar, skal sameiginlega EES-nefndin kanna alla frekari möguleika á því að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd samningsins …“

Og svo segir enn fremur í 5. mgr.:

„Sameiginlega EES-nefndin skal áfram leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig við …“

En í 103. gr. sem vísað er til hér segir:

„Ef ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar getur einungis verið bindandi fyrir samningsaðila eftir að hann hefur uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði skal ákvörðunin ganga í gildi á þeim degi sem getið er í henni, ef sérstakur dagur er tiltekinn, að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili hafi tilkynnt hinum samningsaðilunum fyrir þann dag að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt. Hafi tilkynningin ekki farið fram fyrir umræddan dag gengur ákvörðunin í gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynningu.“

En varðandi 104. gr. er afar áhugaverður texti sem leiðir í raun og veru af 103. gr.

„Ákvarðanir teknar af sameiginlegu EES-nefndinni í tilvikum sem kveðið er á um í samningi þessum skulu vera bindandi fyrir samningsaðila frá og með gildistökudegi þeirra, nema kveðið sé á um annað í þeim, og skulu þeir gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja framkvæmd þeirra og beitingu.“ — Þ.e. ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Og nú vill svo skemmtilega til, herra forseti, að ég er með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í höndum. Þar segir í 2. gr.:

„Íslenskur og norskur texti reglugerða (EB) nr. 713/2009, (EB) nr. 714/2009, (EB) nr. 715/2009, samanber leiðréttingar sem birtust í Stjtíð. ESB …“ — síðan eru tilteknar þær blaðsíður og dagsetningar sem það á við — „og 2012/490/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.“

Texti reglugerðanna sem gera á fyrirvara við seinna telst fullgiltur.

Og dagsetningin: Gjört í Brussel, 5. maí 2017.

Þannig að um leið og innleiðingin á sér stað verður litið svo á að virkninni hafi verið frestað en textinn teljist fullgiltur, réttilega, gagnvart landsrétti og þjóðarétti frá og með dagsetningunni 5. maí 2017.