149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:29]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Mig langar að leita álits hv. þingmanns á því hvaða áhrif þær ótrúlega mögnuðu uppljóstranir sem hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson fór yfir áðan hafa á afstöðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar til þess sem hann greindi hér áðan. Hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson útskýrði afar skilmerkilega, með vísan í frumheimildir, að verði þriðji orkupakkinn samþykktur hér á þinginu taki hann gildi nákvæmlega eins og hann leit út í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017, löngu áður en farið var að tala um þessa fyrirvara sem kallaðir hafa verið lofsverðar blekkingar. Með öðrum orðum, fyrirvararnir hafa nákvæmlega ekkert að segja.

Þetta vekur líka spurningar um fyrirvara Norðmanna þótt þeir hafi á pappírnum litið út fyrir að vera töluvert traustari en þeir íslensku. Allt í einu sér maður hvers vegna stjórnarliðið hafði ekki hugmynd um hvar fyrirvarana var að finna, fyrst þegar farið var að spyrja eftir því, og vísuðu í allar áttir. Það kemur bara á daginn að þeir hafa nákvæmlega ekkert gildi. Verði orkupakkinn samþykktur verður hann innleiddur eins og hann leit út 2017, löngu áður en einhver fékk þá hugmynd að reyna að selja málið með tali um fyrirvara.

Þýðir þetta ekki, í ljósi þess sem hv. þingmaður fór yfir hér áðan, að það er bara ein leið? Það er í raun bara eitt ráð og það er að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það þýðir ekkert að reyna að búa til fyrirvara, jafnvel skárri fyrirvara en þessa ímynduðu fyrirvara stjórnvalda.