149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek undir það. Það er óskiljanlegt hvers vegna menn eru svona hræddir við að fara þessa lögformlegu leið. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að ef niðurstaðan hefði verið sú, og hæstv. ráðherra gaf til kynna að hann hefði rætt við embættismenn, að þeir hafi fundið því allt til foráttu að við færum þessa lögformlegu leið þá hefði hann ekki verið lengi að tilkynna okkur það hér. Hins vegar fæst ekkert frá honum um það hvað hafi farið þeim á milli, enda gefur það augaleið að þegar við höfum samningsbundinn rétt til að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina geta embættismenn ekki sett sig á móti því. Það segir sig sjálft. Hins vegar hefði ég talið að þeir hefðu átt að segja að þetta væri okkar lögformlegi réttur og sjálfsagt og eðlilegt, ef við kysum að fara þá leið, að við færum hana. Það hefði verið gott að fá það frá hæstv. ráðherra. Hann vill kannski ekki koma því á framfæri. Þetta er eitthvað viðkvæmt hjá þeim.

Ástæðan fyrir því er okkur þess vegna ekki ljós, hvers vegna þeir vilja ekki fara þessa leið. Þeir gefa það til kynna að það sé vegna þess að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé í hættu. Ég held að það sé bara fyrirsláttur. Í mínum huga er það klárt að það er fyrirsláttur. Það eru bara stærri og meiri hagsmunir sem knýja þá til að fara þessa leið, vegna þess að innst inni vilja þeir halda þessu algerlega opnu, vilja ekki hafa þetta þannig að við séum undanþegnir þessu vegna vísbendinga um að aðilar séu að fara í stórfellda uppbyggingu á vindorkuverum hér, og þá er kannski búið að kippa öllu undan þeim. Við þekkjum það að slíkir hagsmunir geta haft áhrif.