149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ómálefnalegt óöryggi. Já, ég held að þarna hafi hv. þingmaður svo sannarlega komið réttum orðum að hlutunum. Hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega formann utanríkismálanefndar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Ég varð persónulega vitni að þessum skætingi hennar sem hún hefur margítrekað beitt í málflutningi sínum hér. Hún hefur frá upphafi verið pirruð yfir því að þurfa yfir höfuð að standa hér og færa rök fyrir máli sínu og að hér skuli vera þingmenn sem ekki eru sammála henni, að þingið skuli ekki vera einn hallelújakór yfir þessu máli hennar. Það sást bersýnilega við upphaf málsins þegar hún flutti ræðu sína hér.

Síðan hef ég, eins og ég sagði, persónulega fundið fyrir þessum skætingi, vegna þess að ég hef margítrekað bent á það í málflutningi mínum að raforkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu hafi hækkað umtalsvert við orkupakka eitt og tvö og að það muni halda áfram að hækka við orkupakka þrjú. Þá hefur hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar ítrekað sagt að ég hafi rangt fyrir mér og kallað það úr þingsal. Auk þess var ég í útvarpsþættinum Vikulokin hjá Ríkisútvarpinu þar sem hv. þingmaður var einnig. Þar margsagði hún að ég hefði rangt fyrir mér um að raforkuverð til húshitunar og til almennings og fyrirtækja í landinu hefði hækkað við innleiðingu orkupakka eitt og tvö.

Ég er búinn að hrekja þessar fullyrðingar hv. þingmanns rækilega hér. Ég er búinn að sýna fram á reikninga, blaðagreinar sem greina frá umtalsverðri (Forseti hringir.) hækkun raforku o.s.frv. Þannig að það er auðvitað ámælisvert, (Forseti hringir.) herra forseti, að þingmaður skuli koma fram með þessum hætti.