149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að áhrifin eru ískyggileg og ótrúlega víðtæk, að samevrópsk stofnun skuli fá þessi völd, svona valdamikil stofnun geti í raun og veru ráðið yfir svo mikilvægri auðlind eins og orkan er og stjórnað verðlaginu, stjórnað orkumagninu — ég held að leitun sé að því þegar þessi stofnun verður komið til starfa. Hún er náttúrlega komin til starfa sem slík í dag, en hún hefur ekki enn áhrif á okkur. En hún kemur til með að hafa áhrif á okkur, t.d. bara frá viðskiptalegu sjónarmiði. Við eigum að gera þetta á okkar forsendum. Það kann vel að vera að það verði hagkvæmt fyrir okkur að leggja sæstreng og það var ekkert í sjálfu sér athugavert við það að kanna það við Bretland á sínum tíma. En það á bara að gerast á okkar forsendum, ekki forsendum Evrópusambandsins, að það geti hreinlega ráðið því og stjórnað. Við myndum vilja sjálf ákveða nákvæmlega hvað við viljum fá fyrir orkuna og stjórna magninu vegna þess að það hefur mikil áhrif á iðnaðinn og heimilin í landinu hversu mikil orka fer um þennan streng. Við viljum bara ráða þessu sjálf. Við þurfum ekkert að láta einhverja erlenda stofnun ráða þessu. Þetta hljóta stjórnmálamenn að skilja og eiga að skilja.