149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu eru nefnilega alltaf þau sjónarmið að hámarka arðsemina, eins og í því tilfelli sem hv. þingmaður nefndi, að stór fjárfestingarsjóður kæmi að þessu öllu saman. Tilgangurinn er náttúrlega sá að hámarka arðsemina, þ.e. að selja sem mest af hreinni orku inn á markað þar sem er skortur á hreinni orku, eins og í Evrópu. Við horfum fram á alvarlega stöðu í loftslagsmálum. Við horfum fram á orkuskipti og allt það. Eftirsóknin eftir hreinni orku kemur til með að margfaldast á fáeinum árum. Þess vegna er afar mikilvægt að við höfum full yfirráð yfir þessari orkuauðlind okkar, þessari mikilvægu orkuauðlind, þessum miklu lífsgæðum okkar Íslendinga.

Að samþykkja hér, herra forseti, orkupakka inn í framtíðina sem felur það í sér að önnur stofnun undir alþjóðlegu yfirvaldi, Evrópusambandinu, komi til með að ráða verðinu, ráða magninu o.s.frv., er náttúrlega óútfylltur tékki fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. Þetta er bara svo stórt og mikið mál að það er gersamlega óskiljanlegt að ríkisstjórn Íslands, stjórnarflokkarnir, skuli ætla að keyra málið í gegn með þessum hætti. (Forseti hringir.) Það er algjörlega óskiljanlegt, herra forseti.