149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Síðustu spurningu hv. þingmanns er fljótsvarað: Svör ráðherra voru vafalaust veitt eftir bestu getu og samkvæmt bestu vitund en svörin voru fullkomlega ófullnægjandi og verður að fjalla um þau í nokkrum ræðum.

Málið er þannig vaxið að lagalegi fyrirvarinn er sprottinn frá ríkisstjórninni eða hæstv. utanríkisráðherra. Það er kynnt sem eins konar veltiás í málinu að til staðar sé lagalegur fyrirvari. Síðan leitast menn við að tala mál sem er skiljanlegt sem víðast og þessi lagalegi fyrirvari er stundum kallaður belti og axlabönd til að undirstrika hvað þetta er allt saman rammlega í gadda slegið, tryggt og áhættulaust.

Það sem gerist í gær er að eftir að teflt hefur verið fram fimm, kannski sjö, hugmyndum um hinn lagalega fyrirvara bættust kannski við tvær eða jafnvel þrjár tilgátur í nýlegri færslu frá hv. þingmanni hér suður með sjó. Ég þykist vita að sú færsla sé til nákvæmrar textagreiningar, enda svolítið myrkur texti á köflum. En umfram allt verður að greina það sem hæstv. ráðherra sagði. Maður hefði haldið að ekki þyrfti að halda leitinni að fyrirvaranum áfram eftir að hæstv. ráðherra væri búinn að tjá sig um málið. Hann segir fyrirvarann vera meirihlutaálit þingnefndar, ég er ekki alveg viss hvort það er hv. atvinnuveganefnd eða utanríkismálanefnd. Maður hefði varla átt von á þessu fyrir fram, en þennan fyrirvara verður auðvitað að skoða mjög vel.