149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og þá athyglisverðu ábendingu að huga þurfi vel að kolefnisspori, eins og það heitir á nútímaíslensku, við mismunandi framleiðsluaðferðir á raforku. Það var eiginlega það sem mér heyrðist hv. þingmaður vera að tala um. Það er gjarnan þannig að við ákvarðanir um fjárfestingar sem ætlaðar eru til þess að auka framleiðslu er, eins og hv. þingmaður þekkir, arðsemismat lagt til grundvallar með núvirðisreikningum og ávöxtunarstuðlum og öllu slíku. En í raun erum við, eins og stundum er sagt, komin á þann stað í tilverunni að líta þarf til fleiri þátta. Það er ekki nýtt að litið sé til umhverfissjónarmiða. En hér er verið að tala um umhverfissjónarmið, a.m.k. í ákveðnu tilliti, sem hægt er að tölusetja. Rétt eins og arðsemi er eitthvað sem hægt er að reikna út miðað við mismunandi forsendur er samanburður á milli kosta þarna eitthvað sem hægt er að meta tölulega hvað varðar kolefnisfótsporið. Það er afar þýðingarmikið á tímum loftslagsvár og þess ríka vilja sem uppi er til að bregðast við henni.