149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:28]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, þetta er tvímælalaust það stórt mál, það mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga og raunverulegt fullveldismál, að það kallar á að menn krefjist svara. Við urðum fyrir vonbrigðum í gærkvöldi þegar hæstv. utanríkisráðherra mætti hér. Við höfðum talið að hann kynni að hafa eitthvað nýtt að segja okkur eða gæti brugðist við þeim fjölmörgu atriðum sem komið hafa upp í þessari umræðu sem öll eru til þess fallin að auka á áhyggjur okkar af þriðja orkupakkanum. En allt kom fyrir ekki. Við látum ekki deigan síga, ekki þegar um svona mikið hagsmunamál þjóðarinnar er að ræða. Við höldum áfram að leita svara og skýringa.

Að vísu hefur ekki einn einasti stjórnarliði fengist til að veita nokkur einustu svör. Ég er farinn að óttast að það sé einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki svörin. Hugsanlega hlýða einhverjir þeirra á umræðuna, líst ekki á blikuna og telja þann kostinn vænstan að halda sig til hlés. Ég held að það hafi bara verið eitt tilvik í nótt þar sem stjórnarliði tók til máls, ég held að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi allt í einu dúkkað hér upp undir liðnum fundarstjórn forseta. Þá hafði hann nokkur orð að segja, það snerist náttúrlega um að skammast í Miðflokksmönnum. Hann fékkst hins vegar ekki til þess að taka nokkurn þátt í umræðunni, ekki einu sinni þegar vitnað var sérstaklega í rökstuðning hans sjálfs.

Þetta er erfitt við að eiga, ágæti þingmaður. En það þýðir ekkert að láta deigan síga þegar hagsmunirnir eru eins miklir og varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans.