149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:46]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er stórt spurt. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta eru vissulega stórtíðindi. Ef við hugsum um að Bretland, sem er eitt af okkar stærstu viðskiptalöndum, að svo fari að þeir gangi þá leið að ganga úr Evrópusambandinu án samnings, er einboðið að Bretland mun þurfa að reiða sig enn þá frekar á tvíhliða samninga við önnur ríki í utanríkisviðskiptum sínum.

Því hefur verið fleygt og talað um í umræðunni um útgöngu Breta að þeir hafi jafnvel verið að skoða að ganga inn í EFTA-samstarf og gera tilraun til þess. Það væri náttúrlega til að tryggja hagsmuni Bretlands að nokkru leyti. En vera mætti að þeir myndu geta hugsað sér að gera tvíhliða samkomulag við Íslendinga um þau viðskipti sem við eigum við þá nú þegar.

Þá mætti hugsa sér að í því gætu verið fólgnir hagsmunir fyrir okkur að vera ekki búnir að ganga þessa leið og undirgangast innleiðingu þriðja orkupakkans, en hafa áfram fullt forræði á orkulindum okkar, hafa fullt forræði á því hvort, hvenær og hverjum við myndum selja orku um sæstreng, ef og þegar það væri inni í myndinni, með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.