149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, umboðslausir. Ég tek undir þetta eins og ég sagði áðan. Það er auk þess náttúrlega mjög athyglisvert að grasrót flokka sem standa að þessari tillögu, stjórnarflokkanna, er andvíg því að fara í þessa vegferð.

Hér hefur verið nefnt að Sjálfstæðisflokkurinn eigi afmæli í dag og ég óska honum til hamingju með það. Það verður fróðlegt að vita hvort málið ber á góma í þeim afmælisfagnaði. En það er mjög sérstakt að stjórnmálaflokkar og ríkisstjórn — nú eru þrír flokkar sem standa að ríkisstjórninni, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir — að andstaða er innan grasrótar allra þeirra flokka gegn málinu. Fyrrverandi ráðherrar þessara flokka, úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum, hafa mótmælt þessu og lýsa þungum áhyggjum sínum. Engu að síður er haldið áfram á þessari vegferð. Og síðan í trássi við vilja þjóðarinnar.

Maður spyr, herra forseti: Hvað veldur því að menn ganga fram með þessum hætti? Við hvað eru menn hræddir þegar kemur að alþjóðasamstarfi og alþjóðasamningum? Við erum fullvalda þjóð, við eigum tvíhliða samskipti við Evrópusambandið. Við eigum þar alveg jafnan rétt á við Evrópusambandið.