149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:24]
Horfa

Forseti (Guðjón S. Brjánsson):

Forseti hyggst nú ljúka þessum fundi þar sem því miður er ekki útlit fyrir að hægt verði að tæma umræðuna um dagskrármálið þrátt fyrir margar ræður og talsverð skoðanaskipti meðal þingflokksmanna Miðflokksins sem einir hafa haldið hér ræður utan þess sem utanríkisráðherra tók þátt í umræðunni um stund síðdegis í gær. Þessi fundur hefur nú staðið í bráðum 19 klukkustundir. Umræðan í heild hefur staðið í nærri 100 klukkustundir og þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í vel yfir 80 klukkustundir. Forseta þykir miður að geta ekki lokið þessari umræðu, en þess hefur verið freistað að gefa hv. þingmönnum nægilegt svigrúm til að ræða málið ítarlega svo hægt verði að tæma mælendaskrá og klára umræðuna.

Það bíður allra næstu daga að komast að niðurstöðu en þrátt fyrir að hér mætist stálin stinn verður ekki hjá því komist að ljúka umræðunni með þeim lýðræðislegu leikreglum sem við höfum tamið okkur og hefð er fyrir. Mörg verkefni þingsins bíða nú á vordögum og vonandi verður það okkur til lánsins að geta lokið störfum farsællega á næstu dögum.

Forseta telst til að á þessum þingfundi hafi verið haldnar 53 ræður og andsvör hafi samtals verið 311.

Forseti vill að lokum þakka starfsmönnum þingsins fyrir langt úthald. Það á við um starfsfólk sem tengist þingsalnum og skrifstofunni, móttöku og öryggisvörslu, og síðast en ekki síst þau sem starfa í mötuneyti og gefa okkur næringu til að orkan sé jafn öflug og mikil og dæmin sanna.