149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Mér vitanlega hefur enginn fyrirvari verið gefinn við eða undanþága frá orkustefnu Evrópusambandsins þannig að ég held að það sé alveg ljóst að hin fátæklegu rök sem Evrópusambandið hefur hingað til litið svo á að við hefðum uppi í þessu máli muni ekki gilda gagnvart því að breyta orkustefnu Evrópusambandsins eða koma í veg fyrir að þar og innan svæðisins muni menn sækja mál sitt býsna fast.

Það sem ég tel mikilvægt að gera í stöðunni er að taka þetta mál og segja: Það er komið nýtt upp. Við erum búin að sjá að það er frekar hröð þróun í málinu. Það er líka komin upp sú staða að hér er fyrirtæki búið að fjármagna það að fara í svona streng. Við erum einfaldlega að skoða betur þau lagalegu áhrif sem þetta kann að hafa á stöðu Íslands, verði sú leið farin sem nú er uppi, auk framtíðaráhrifa vegna orkupakkans sem er nú kominn fram, hver heildaráhrifin verða.

Ég tel að það sé ekki hægt að taka neinn séns á því að klára þetta mál með þeim hætti sem nú á að gera, vitandi það sem við vitum í dag, og þó er takmarkað hvað við vitum vegna þess að við höfum ekki enn þá fengið þá djúpu innsýn sem þörf er á inn í fjórða orkupakkann, þ.e. hver þróunin verður. Hver eru endanleg markmið? Mun áframhaldandi valdframsal eiga sér stað? Mun áframhaldandi þróun, við skulum orða það þannig, verða í þá átt að ríkin sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu muni þurfa að gefa eftir af sínu áhrifavaldi? Og svo hitt: Hvert er álit samstarfsríkja okkar t.d. í EFTA gagnvart fjórða orkupakkanum? Hefur það verið kannað?